fimmtudagur, 3. janúar 2019

Gæði bóka og tónlistar

"Hating popular things does not automatically make you an interesting person." (af víðnetinu) 

Á undanförnum misserum hefur einn af tengiliðum mínum á Facebook verið að fara í gegnum rokksöguna og leggja mat á gæði verka hinna ýmsu hljómsveita úr fortíðinni, nefna má þar Queen og Sonic Youth. Í flestum tilfellum er mat hans á viðkomandi böndum fremur neikvætt, og rökstyður hann niðurstöður sínar með ýmsum hætti. Viðbrögðin eru svo blanda af húrrahrópum og mikilli hneykslan.

Mér finnst þetta dæmi alveg skemmtilegt, en þó finnst mér þessi nálgun frekar grunn. Sjálfskipaðir (yfirleitt karlkyns) dómarar um gæði eða skort á gæðum fyrirbæra hafa verið hluti af lífi mínu (og okkar flestra) alla tíð - og þeir hafa fundið sér frábæran vettvang á víðnetinu. Þessi plata er drasl. X kann ekkert að spila á gítar. Þessi rithöfundur er ofmetinn. Dómararnir taka sér ákveðna leiðtogastöðu og fylgismenn (og jú -konur) þeirra fá stöðu sína af því að taka undir og jafnvel ýkja skoðanir leiðtoga sinna. Mælikvarðarnir mega samt ekki vera of augljósir, því að mikilvægt er að tryggja að fylgisveitin viti hvar hinn endanlegi dómur er kveðinn upp. (uppáhaldið mitt er reyndar þegar einhver spekingurinn "uppgötvar" að einhver klassískur, vinsæll og virtur höfundur sér í rauninni bara einhver horbjóður).

Fórnarlömb slíkra alviturra dómara ná frá Laxness, gegnum Queen og Friends og ná miklum hæðum í fyrirlitningu á höfundum á borð við J.R.R. Tolkien og J.K. Rowling.  En hvernig er samband okkar við bækur (og tónlist, og þætti, og kvikmyndir og .... )?  Dómararnir eru greinilega víðlesnir og hlustaðir (jafnvel al-) og geta út frá þeirri víðfeðmu þekkingu sinni metið gæði allra hluta. Ég held samt að upplifunin sem rithöfundurinn V.E. Schwab lýsir í myndbandinu hér að neðan (horfið!) sé miklu nær því sem við flest þekkjum. Við löðumst að tilteknum verkum, og höfundum og við myndum einhvers konar trúnaðarsamband. "Gæði" verkanna spila hér væntanlega einhverja rullu, en það er samspil þeirra við okkar flóknu verund sem getur af sér að við viljum halda áfram að lesa (eða hlusta, eða horfa, eða.... ). Mér finnst það að byrja Tolkien fyrirlestur á því að viðurkenna að hún hafi aldrei lesið Tolkien magnað - og svo lýsir hún hvernig hún varð lesari fyrir það að kynnast Harry Potter ... það er enginn vafi að Tolkien er lykilhöfundur í því að gera mig að lesara... og hafið yfir allan vafa að Queen er eitt af því sem gerði mig að hlustara.



 
 

Það er ekki þar með sagt að verk Tolkiens (rasismi, kynjahalli, langdregni) Rowling (rasismi?, holur í heimsbyggingu .... )  og Mercurys (allt allt allt allt allt allt of pródúserað) séu ekki ýmsum annmörkum háð, og mikilvægt að kafa í þá (annmarkana). Sterk tengsl við ákveðinn verk geta styrkst eða dofnað eftir aldurskeiðum og með þroska. Þegar í ljós kom að Woody Allen er perri eyðilagði það myndirnar hans fyrir mér. Ég veit alveg að það er ólógískt á einhverju plani, en ég upplifði þetta sem hrein svik og gekk í gegnum ákveðið sorgarferli. Ekki djók. 

Þannig að ég er ekki boða einhverja alsherjar afstæðishyggju um að ekki sé hægt að meta gæði tónlistar eða ritlistar (tæknilega færni hljóðfæraleikara, persónusköpun, gott rím, flottan stíl o.s.frv.). Ég myndi hins vegar miklu frekar vilja als konar umræðu um alls konar hluti í alls konar verkum en ekki einhverja einfalda alsherjardóma sem mér finnst snúast meira um að dæmendur séu að staðsetja sig efst í einhverjum píramída menningarlegra álitsgjafa sem við aumir fantísíulesandi queenfílandi plebbarnir eigum að lúta í duftið fyrir. 

Og ég held svei mér að maður geti alveg verið áhugaverð persóna þó maður fíli Sonic Youth, glotti stundum að Friends og viti í hvaða Hogwarts húsi maður er. 

Gryffindor btw. 

Image result for Gryffindor logo
 

Engin ummæli:

Skrifa ummæli