sunnudagur, 16. september 2018

Harry Potter og helgiritin

Fyrir nokkru (þá staddur í Osló) skrifaði ég örlítið um Harry Potter, þann póst má lesa hér. Í þessum pósti var ég upptekinn af holum og einkennilegheitum í heimsmíði Rowling (langar reyndar líka að bæta við pælingu um myndirnar, tek það kannski betur síðar). Síðan þá hef ég haldið áfram að lesa seríuna, og datt svo niður á þetta podcast hérna, sem mætti kalla á íslensku Harry Potter og helgiritin.

Skemmst er frá að segja að þetta er mjög áhyerilegt og áhugavert (og aðgengilegt á Spotify) - en útgangspunkturinn er að lesa bækurnar með aðferðum sem notaðir eru í nálgun á helgirit. Ég er bara kominn á kafla 6 í fyrstu bók og mjög ánægður með hvað það er mikið eftir :-) ....

Það er margt í þessu sem er gott, en strax í upphafi þá kemur fram að nálgun þeirra er önnur en mín í blogginu - þau eru ekki að leita að holum eða slíkt heldur nálgast verkið alltaf jákvætt. Þau reyna svo líka að nálgast alla karaktera eins jákvætt og þau geta, og hafa meira að segja náð að segja góða hluti um Dursley hjónin og Dudley.

Annað sem vakti áhuga minn er að einn af kynnunum, Vanessa Zoltan, starfar sem "humanist chaplain" - og lítur á skáldskap og þess háttar sem ígildi helgirita fyrir nútímafólk - sækir óhikað innblástur frá trúarbrögðum og ber virðingu fyrir þeim - en lítur svo á að guð sé ekki til og að hægt sé að ná að uppfylla þarfir fyrir helgisiði og sáluhjálp án þess að þær hvíli á guðstrú.

Að mínu mati er nálgun þeirra mjög heillandi, og ég hald að þarna gæti líka verið hugmyndabanki sem mætti nýta í kennslu á bókmenntum.... kannski meira um það síðar... 


.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli