Mér finnst samt asnalegt að segja eins og hinn ágæti Doktor Gunni að "það að skilgreina pönk sé ekki pönk" - alveg rétt, en það þarf ekki allt að vera pönk. Það að skilgreina pönk gæti verið heimspeki eða e.k. poppfræði. Skilgreining á trésmíði er ekki trésmíði, en það er í sjálfu sér ekkert athugavert við það að skilgreina trésmíði og svoleiðis skilgreiningar geta verið mikilvægar, gagnlegar og jafnvel skemmtilegar.
Allavega, mig langar að setja fram þrjár hugmyndir um pönk sem ég byggi að verulegu leyti út frá gamla og nýja testamenti íslenskra pönkara, Rokk í Reykjavík. Gaman að því að bara hluti af tónlistinni í myndinni er nokkuð nálægt því að vera pönk, en það er ekki aðalatriði. Í þessu ágæta viðtali hérna fyrir ofan lýsir Ragnar Kjartansson áhrifum myndarinnar, og hvernig íslensk menning var eiginlega ósköp óspennandi fyrir hana.
Fyrsta hugmyndin er um pönk sem einhvers konar pólítíska hreyfingu, andóf gegn íhaldsöflum og barátta fyrir réttindum atvinnulausra, minnihlutahópa o.s.frv. Í Rokk í Reykjavík er Bubbi Morthens fulltrúi þessa sjónarmiðs, þó að múskíkklega megi að sumu leyti flokka hann meira sem póst-hippa eða eitthvað í þeim dúr. Ákveðinn núningur milli ákveðinna gerða pönks er vel greinanlegur í þessu einkar skemmtilega lagi, Breyttir tímar, sem er í frábærri útgáfu í myndinni, en endurfæðist svo sem fágað nýbylgjulag á breiðskífunni Breyttir tímar með Egó, á undan er eitt af fleiri fremur steiktum viðtölum í myndinni.... erlendar hljómsveitir sem mætti nefna hér eru klárlega the Clash, en kannski allra helst Crass - en hér er frábær heimildamynd um það fyrirbæri. Menningarlega og pólítísk mjög áhugavert - en tónlistarlega, tja allavega ekki minn tebolli... Tónlistarlegur höfuðóvinur þessarar nálgunar pönk er froðupopp og diskó.
Næsta hugmynd um pönk er svo ákveðin tónlistarleg afstaða, aðferðafræði og nálgun. Algjör æðstiprestur og yfirgúrúinn hér er Einar Örn Benediktsson í Purrki Pillnikk með yfirlýsingu sinni það er ekki hvað þú getur, heldur hvað þú gerir. Pönkið er þannig tónlistarleg uppreisn gegn hinu margflókna og yfirpródúserað progrokki, Pink Floyd, Queen og félagar. Hér er unnið útfrá rótum frumrokksins, músíkkin hrá, lítil áhersla á tæknilega færni í hljóðfæraleik, textar oft einfaldir og beinskeyttir og ekki (endilega) pólítískir, mögulega daður við e.k. súrrealsima eða eitthvað slíkt. Fræbblarnir koma líka hérna inn þó að þeir séu náttúrulega mjög ólíkir Purrkinum. Sem trommuleikari og textasmiður rek ég sjálfur mínar ættir hingað.... Skemmtilegt dæmi um viðhorf af þessu tagi er hjá Kim Gordon bassaleikara Sonic Youth þegar hún er spurð um áhrifavalda og hún nefnir Sid Vicious og talar um hvernig hún passar sig að verða ekki of góð á hljóðfærið sitt.... Tónlistarlega er það proggið sem er óvinurinn, diskóið og það allt gæti svona pönkara bara þótt smá fyndið...
Síðasta hugmyndin sem ég vil svo nefna er pönkið sem ákveðin tískustefna: hanakamburinn, rifni leðurjakkinn, sikrisnælurnar .... og líklega rifnu gallabuxurnar sem eru núna enn og aftur komnar í tísku. Glæsilegasti fulltrúi þessar pönknálgunnar í Rokk í Reykjavík er Ellý í Q4U og svo raunar allt bandið. Það er fremur asnalegt að segja að þetta sé "ekki pönk". Mætti færa rök fyrir því að þetta sé kannski yfirborðskenndasta myndbirtingin, en að sama skapi sú sem hefur náð mestri útbreiðslu.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli