föstudagur, 6. október 2017

Er Draco Malfoy með kennitölu?

Ólíkt einhvrejum menningarlegum meðvituðum aðilum á víðnetinu þá hef ég býsna gaman af Harry Potter bókunum. Skemmtilegasti hluti þeirra finnst mér reyndar yfirgengilega gróteskan sem tengist Dursley fjölskyldunni. Ég er núna í gangi með að lesa bækurnar upphátt fyrir Sölku Nóu, en ég fór í gegnum 1-4,5 fyrir Sóldísi fyrir nokkrum árum. Myndirnar hef ég svo allar séð og flestar oft.

Það er ákveðin atriði sem mér finnst samt erfitt að gútera við heiminn sem Rowling hefur skapað. Í stað þess að leggjast í einhverjar voðalegar rannsóknir ætla ég bara að láta vaða og sjá hvort einhverjir dæhard aðdáendur geti vísað mér vegar til uppljómunar.

1) Tengsl mugga- og galdraheimsins. Hvernig má það vera að svokallaðir "blóðníðingar"  á borð við Hermione geta verið til án þess að þessi tilvera þeirra uppgötvist í gegnum fjölskyldur þeirra?
2) Hvernig er menntun barna úr "hreinum" galdrafjölskyldum háttað áður en þau koma í Hogwarts? Er tilvera "hreinu" galdrafjölskyldanna alveg utan við radar hverskyns veraldlegra yfirvalda? Er Draco Malfoy með kennitölu?
3) Hvernig stendur á því að Draco velti fyrir sér að fara kannski í Durmstrang, en ekki einhvern annan galdraskóla þar sem væri töluð enska? Eða er enska (með austurevrópskum hreim í Durmstrang og frönskum í Beauxbatons) mál allra galdraskóla?
4) Hvernig stendur á því að það virðast vera nákvæmlega jafnmargir á hverju ári á hverri vist, þó svo að Flokkunarhatturinn velji samkvæmt persónueinkennum. Það virðist vera að vistirnar í hverjum árgangi séu saman í mismunandi fögum (Gryffindor-Slytherin/ Gryffindor-Ravenclaw) .... engu að síður er svo að skilja að það séu líka valgreinar. Er aðeins að velta fyrir mér námskránni og stundatöflusmíði.
5) Er "galdramálaráðuneytið" einhvers konar alheimsyfirvald eða ríkir það bara yfir breskum galdramönnum. Gefið er í skyn ef ég man rétt að Karkaroff hafi verið í slagtogi við Voldemort og að ráðuneytið hafi því horn í síðu hans. Það virðist vera yfirþyrmandi anglósentrismi í þessu sem er svoldið erfitt að átta sig á. Talað er um galdramenningu hér og þar en kjarni hennar virðist vera í Bretlandi.
6) Önnur spurning um Galdramálaráðuneytið? Hvernig er "galdramálaráðherra" valinn, og hvert er valdsvið hans? Er hér um einhver konar meritokasíu að ráða, einhvers konar framgangskerfi sem er að einhverju leyti fórnarlamb spillingar? (það eru klárlega átök innan galdraheimsins, frjálslyndir versus fasistar, en þessi átök eiga sér ekki farveg í gegnum flokkspólítík af neina tagi, jafnframt virðist ekki vera um neins konar skiptingu valdsins að ræða).

...ég ítreka að ég hef gaman af bókunum, en þegar lagst er út í veraldarsmíði á þessum skala er óhjákvæmilegt að svona spurningar komi upp, ekki síst þegar farið er út í að prjóna aftan við enn meira stöffi..... Skyld pæling er svo þessi klassíska hvað gerði Aragorn við alla orkana eftir að Sáron var alllur - þurfti að ræsa einhvers konar helför eða hvað....

Engin ummæli:

Skrifa ummæli