
Ég kláraði í dag skáldsöguna Víghólar eftir Emil Hjörvar Petersen. Þetta er fantasía / glæpasaga sem gerist í Íslandi samtímans, nema með þeim mun að Hulduheimar (og reyndar líka Handanheimar) eru til og vísindalega viðurkennd fyrirbæri, og samspil mannheima og hinna tveggja leiðir af sér ýmis konar hluti og mynda fléttuna sem heldur sögunni uppi.
Þetta er skemmtileg, spennandi og grípandi bók. Heimurinn er settur fram þannig að maður fyllist áhuga og hér eru margvíslegir möguleikar á framhalds/ hliðar / og útfærslu í öðrum miðlum, enda skilst mér að sjónvarpsþáttaröð sé í uppsiglingu.
Persónur sögunnar eru kannski ekkert mjög frumlegar - óþolandi karrérmiðuð kona sem er yfirmaður lögreglunnar er eins og peistuð beint úr hvaða sænska eða enska glæpaþætti sem vera skal, og Bergrún, keðjureykjandi miðilinn sem er í aðalhlutverki er dæmigerð andhetja ... nema að því leytinu til að hún er kona. Brá, dóttir hennar er að mínu mati áhugaverðasta persónan og sú sem þróast mest í sögunni, og manni finnst líklegt að framhaldssögur muni færa áhersluna á hana. Hún er svo líka týpískur nörd, spilar tölvuspil og les sjálf fantasíur, og á einum stað mælir hún sérstaklega með Mieville og le Guin sem gladdi mitt gamla hjarta - þar sem hér er nikkað til minna uppáhaldshöfunda.
Mér fannt málfarið á köflum dálítið hátíðlegt og bóklegt, t.d. fannst mér skrýtið að Brá skyldi alltaf tala um Bergrúnu sem "móður" sína, en þetta er kannski meira svona smekksatriði.
... eitt sem mér datt í hug varðandi framhald er möguleikinn að skrifa sögu sem gerist aðallega í hulduheimi..... bara pæling.
Frábært framlega til íslenskra furðusagna hér á ferð sem óhætt er að mæla með!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli