Ólíkt einhvrejum menningarlegum meðvituðum aðilum á víðnetinu þá hef ég býsna gaman af Harry Potter bókunum. Skemmtilegasti hluti þeirra finnst mér reyndar yfirgengilega gróteskan sem tengist Dursley fjölskyldunni. Ég er núna í gangi með að lesa bækurnar upphátt fyrir Sölku Nóu, en ég fór í gegnum 1-4,5 fyrir Sóldísi fyrir nokkrum árum. Myndirnar hef ég svo allar séð og flestar oft.
Það er ákveðin atriði sem mér finnst samt erfitt að gútera við heiminn sem Rowling hefur skapað. Í stað þess að leggjast í einhverjar voðalegar rannsóknir ætla ég bara að láta vaða og sjá hvort einhverjir dæhard aðdáendur geti vísað mér vegar til uppljómunar.
1) Tengsl mugga- og galdraheimsins. Hvernig má það vera að svokallaðir "blóðníðingar" á borð við Hermione geta verið til án þess að þessi tilvera þeirra uppgötvist í gegnum fjölskyldur þeirra?
2) Hvernig er menntun barna úr "hreinum" galdrafjölskyldum háttað áður en þau koma í Hogwarts? Er tilvera "hreinu" galdrafjölskyldanna alveg utan við radar hverskyns veraldlegra yfirvalda? Er Draco Malfoy með kennitölu?
3) Hvernig stendur á því að Draco velti fyrir sér að fara kannski í Durmstrang, en ekki einhvern annan galdraskóla þar sem væri töluð enska? Eða er enska (með austurevrópskum hreim í Durmstrang og frönskum í Beauxbatons) mál allra galdraskóla?
4) Hvernig stendur á því að það virðast vera nákvæmlega jafnmargir á hverju ári á hverri vist, þó svo að Flokkunarhatturinn velji samkvæmt persónueinkennum. Það virðist vera að vistirnar í hverjum árgangi séu saman í mismunandi fögum (Gryffindor-Slytherin/ Gryffindor-Ravenclaw) .... engu að síður er svo að skilja að það séu líka valgreinar. Er aðeins að velta fyrir mér námskránni og stundatöflusmíði.
5) Er "galdramálaráðuneytið" einhvers konar alheimsyfirvald eða ríkir það bara yfir breskum galdramönnum. Gefið er í skyn ef ég man rétt að Karkaroff hafi verið í slagtogi við Voldemort og að ráðuneytið hafi því horn í síðu hans. Það virðist vera yfirþyrmandi anglósentrismi í þessu sem er svoldið erfitt að átta sig á. Talað er um galdramenningu hér og þar en kjarni hennar virðist vera í Bretlandi.
6) Önnur spurning um Galdramálaráðuneytið? Hvernig er "galdramálaráðherra" valinn, og hvert er valdsvið hans? Er hér um einhver konar meritokasíu að ráða, einhvers konar framgangskerfi sem er að einhverju leyti fórnarlamb spillingar? (það eru klárlega átök innan galdraheimsins, frjálslyndir versus fasistar, en þessi átök eiga sér ekki farveg í gegnum flokkspólítík af neina tagi, jafnframt virðist ekki vera um neins konar skiptingu valdsins að ræða).
...ég ítreka að ég hef gaman af bókunum, en þegar lagst er út í veraldarsmíði á þessum skala er óhjákvæmilegt að svona spurningar komi upp, ekki síst þegar farið er út í að prjóna aftan við enn meira stöffi..... Skyld pæling er svo þessi klassíska hvað gerði Aragorn við alla orkana eftir að Sáron var alllur - þurfti að ræsa einhvers konar helför eða hvað....
föstudagur, 6. október 2017
þriðjudagur, 3. október 2017
Hvað er pönk?
Það kom spurning inn á Facebookhópinn Ræflarokkarar Íslands frá Steinu Rósu í pönksafninu þar sem hún velti upp þessari áhugaverðurspurningu, sem kæmi oft upp á safninu. Fyrirsjáanlega varð til mikill bálkur af svörum sem voru mörg ágæt, og einkenndust fyrirsjáanlega af skætingi og miklu attítjúdi að pönkara sið.
Mér finnst samt asnalegt að segja eins og hinn ágæti Doktor Gunni að "það að skilgreina pönk sé ekki pönk" - alveg rétt, en það þarf ekki allt að vera pönk. Það að skilgreina pönk gæti verið heimspeki eða e.k. poppfræði. Skilgreining á trésmíði er ekki trésmíði, en það er í sjálfu sér ekkert athugavert við það að skilgreina trésmíði og svoleiðis skilgreiningar geta verið mikilvægar, gagnlegar og jafnvel skemmtilegar.
Allavega, mig langar að setja fram þrjár hugmyndir um pönk sem ég byggi að verulegu leyti út frá gamla og nýja testamenti íslenskra pönkara, Rokk í Reykjavík. Gaman að því að bara hluti af tónlistinni í myndinni er nokkuð nálægt því að vera pönk, en það er ekki aðalatriði. Í þessu ágæta viðtali hérna fyrir ofan lýsir Ragnar Kjartansson áhrifum myndarinnar, og hvernig íslensk menning var eiginlega ósköp óspennandi fyrir hana.
Fyrsta hugmyndin er um pönk sem einhvers konar pólítíska hreyfingu, andóf gegn íhaldsöflum og barátta fyrir réttindum atvinnulausra, minnihlutahópa o.s.frv. Í Rokk í Reykjavík er Bubbi Morthens fulltrúi þessa sjónarmiðs, þó að múskíkklega megi að sumu leyti flokka hann meira sem póst-hippa eða eitthvað í þeim dúr. Ákveðinn núningur milli ákveðinna gerða pönks er vel greinanlegur í þessu einkar skemmtilega lagi, Breyttir tímar, sem er í frábærri útgáfu í myndinni, en endurfæðist svo sem fágað nýbylgjulag á breiðskífunni Breyttir tímar með Egó, á undan er eitt af fleiri fremur steiktum viðtölum í myndinni.... erlendar hljómsveitir sem mætti nefna hér eru klárlega the Clash, en kannski allra helst Crass - en hér er frábær heimildamynd um það fyrirbæri. Menningarlega og pólítísk mjög áhugavert - en tónlistarlega, tja allavega ekki minn tebolli... Tónlistarlegur höfuðóvinur þessarar nálgunar pönk er froðupopp og diskó.
Næsta hugmynd um pönk er svo ákveðin tónlistarleg afstaða, aðferðafræði og nálgun. Algjör æðstiprestur og yfirgúrúinn hér er Einar Örn Benediktsson í Purrki Pillnikk með yfirlýsingu sinni það er ekki hvað þú getur, heldur hvað þú gerir. Pönkið er þannig tónlistarleg uppreisn gegn hinu margflókna og yfirpródúserað progrokki, Pink Floyd, Queen og félagar. Hér er unnið útfrá rótum frumrokksins, músíkkin hrá, lítil áhersla á tæknilega færni í hljóðfæraleik, textar oft einfaldir og beinskeyttir og ekki (endilega) pólítískir, mögulega daður við e.k. súrrealsima eða eitthvað slíkt. Fræbblarnir koma líka hérna inn þó að þeir séu náttúrulega mjög ólíkir Purrkinum. Sem trommuleikari og textasmiður rek ég sjálfur mínar ættir hingað.... Skemmtilegt dæmi um viðhorf af þessu tagi er hjá Kim Gordon bassaleikara Sonic Youth þegar hún er spurð um áhrifavalda og hún nefnir Sid Vicious og talar um hvernig hún passar sig að verða ekki of góð á hljóðfærið sitt.... Tónlistarlega er það proggið sem er óvinurinn, diskóið og það allt gæti svona pönkara bara þótt smá fyndið...
Síðasta hugmyndin sem ég vil svo nefna er pönkið sem ákveðin tískustefna: hanakamburinn, rifni leðurjakkinn, sikrisnælurnar .... og líklega rifnu gallabuxurnar sem eru núna enn og aftur komnar í tísku. Glæsilegasti fulltrúi þessar pönknálgunnar í Rokk í Reykjavík er Ellý í Q4U og svo raunar allt bandið. Það er fremur asnalegt að segja að þetta sé "ekki pönk". Mætti færa rök fyrir því að þetta sé kannski yfirborðskenndasta myndbirtingin, en að sama skapi sú sem hefur náð mestri útbreiðslu.
miðvikudagur, 11. janúar 2017
Víghólar - Emil Hjörvar Petersen

Ég kláraði í dag skáldsöguna Víghólar eftir Emil Hjörvar Petersen. Þetta er fantasía / glæpasaga sem gerist í Íslandi samtímans, nema með þeim mun að Hulduheimar (og reyndar líka Handanheimar) eru til og vísindalega viðurkennd fyrirbæri, og samspil mannheima og hinna tveggja leiðir af sér ýmis konar hluti og mynda fléttuna sem heldur sögunni uppi.
Þetta er skemmtileg, spennandi og grípandi bók. Heimurinn er settur fram þannig að maður fyllist áhuga og hér eru margvíslegir möguleikar á framhalds/ hliðar / og útfærslu í öðrum miðlum, enda skilst mér að sjónvarpsþáttaröð sé í uppsiglingu.
Persónur sögunnar eru kannski ekkert mjög frumlegar - óþolandi karrérmiðuð kona sem er yfirmaður lögreglunnar er eins og peistuð beint úr hvaða sænska eða enska glæpaþætti sem vera skal, og Bergrún, keðjureykjandi miðilinn sem er í aðalhlutverki er dæmigerð andhetja ... nema að því leytinu til að hún er kona. Brá, dóttir hennar er að mínu mati áhugaverðasta persónan og sú sem þróast mest í sögunni, og manni finnst líklegt að framhaldssögur muni færa áhersluna á hana. Hún er svo líka týpískur nörd, spilar tölvuspil og les sjálf fantasíur, og á einum stað mælir hún sérstaklega með Mieville og le Guin sem gladdi mitt gamla hjarta - þar sem hér er nikkað til minna uppáhaldshöfunda.
Mér fannt málfarið á köflum dálítið hátíðlegt og bóklegt, t.d. fannst mér skrýtið að Brá skyldi alltaf tala um Bergrúnu sem "móður" sína, en þetta er kannski meira svona smekksatriði.
... eitt sem mér datt í hug varðandi framhald er möguleikinn að skrifa sögu sem gerist aðallega í hulduheimi..... bara pæling.
Frábært framlega til íslenskra furðusagna hér á ferð sem óhætt er að mæla með!
Gerast áskrifandi að:
Ummæli (Atom)