Sá í gær aftur Astrópíu og fannst hún hafi staðist tímans tönn nokkuð vel. Ég hjó eftir nokkrum punktum sem mér fundust skemmtilegir - samspil teikninga og hreyfimynda, kynusli, karakter hrunverjans og svo trúverðug og skemmtileg framsetning á kúltúr spunaspilanna.
Teikningarnar eru flottar og tæknilegar lausnir í kringum það eru flottar. Allt lúkkið og stemmingin í hreyfimyndaþættinum hefur líka ákveðin teiknimyndablæ, veggfóðrin í íbúðunum, fangabúningarnir o.s.frv. Þáttur í þessu er hvernig fangelsin eru 'ameríkaníseruð' (A-álma; C-álma) og skemmtileg útfærsla á flóttanum. Heimur myndarinnar er þannig í raun þrefaldur: 'raunveruleikinn', teiknimyndirnar og svo heimur spilanna - sem rennur svo saman með skemmtilegum hætti í lokauppgjörinu.
Ég myndi segja að Astrópía leggi með skemmtilegum hætti til atlögu við steríótýpur. Þannig þroskast Hildur út úr svona týpískri ljóskutilveru yfir í að vera sjálfstæð sterk kona í gegnum kynni sín af nördunum. Atriðið þegar hún mótmælir klæðaburði karaktersins síns í spilinu er mjög skemmtilegt ("já en, svona eru konur alltaf í svona spilum") - flissið í Betu við þetta tækifæri er skemmtilegt. Með sama hætti er Dagur afar áhugaverður - hann er semsagt spunaspilari, sem er mjög metró í klæðaburði, þýðir ástarsögur og kennir dans á elliheimili - en er ekki hommi - og það er aldrei hintað að því í myndinni að svo gæti verið. Hugsa reyndar að dagur þessi myndi flokkast á mörgum levelum sem 'rasshaus' samkvæmt flokkunarkerfi þekkts fræðimanns á sviði karlmennsku.
Jolli er svo mjög skemmtilega túlkaður hefðbundinn kalldrullusokkur og hrunverji, með penininga falda á Cayman - sem vill ekki að kærastan hans vinni í einhverri lúðabúð. Það kemur líka inn í kynjapælinguna hvernig stelpurnar í kynningunni misheppnuðu í upphafi eru í einhverjum fáránlegum bíkíníum í ískulda - að Hildur fer alltaf aftur í úlpuna um leið og hann hverfur - smá uppreisn í henni strax þá..
Spilaatriðin eru svo algjör snilld og hvernig rödd GMs-ins Goggi hljómar og raddir í og úr spili koma saman er algjörlega brilljant - og ég veit ekki annað en að þetta sé einstakt í kvikmynd . Spunaspil eru yfirleitt sett fram annaðhvort sem einhvers dæmi um botnlausan nördaskap og almenna ömurð (t.d. í Big Bang Theory) eða sem eitthvað skelfilega hættulegt fyrirbæri. Myndir sem byggja á ferða milli ímyndaðs veruleika og veruleikans byggja undantekningalítið á bókum, kvikmyndum eða (í minna mæli) tölvuspilum. Þetta er svolítið skondið því spunaspil bjóða svo augljóslega upp á þetta og geta verið endalaus uppspretta frábærra verka á borð við Astrópíu. Að auki er til fyrirmyndar að öll tækniorð og samtöl um efnið eru mjög sannfærandi og byggja á raunverulegum spilum, hugtökum og höfundum (t.d. Monte Cook). Rétt að nefna að sú innlifun sem Hildur kemst samstundis í samkvæmt myndinni er ekki endilega reynsla allra sem spila í fyrsta skipti - en líklega er hugmyndin að Goggi sé leikstjórnandi af allra bestu gerð. Þegar ég hóf að spila D&D núna í hitteðfyrra tók ég stutt prufuspil undir stjórn Þorsteins Mars Gunnlaugssonar og það var næstum svona .... næstum..... Eina sem kannski mætti hnýta í í þessu samhengi er að LARP er látið hanga úti sem eitthvað óbærilega hallærislegt - og sem Goggi er hættur í og hálf skammast sín fyrir. Larpið er kannski síðasta vígið, en það er fyndið að margir die-hard spilanördar virðast einhvern á því máli að það sé síðasta sort - þó það sé náttúrulega bara enn ein fjölbreytt og skemmtileg birtingamynd spilakúltúrsins.
Að lokum er líka skemmtileg að sjá að þarna er samankominn stór hluti þeirra sem síðan leika í vöktunum og áhugaleikarar margir sem hafa t.d. gert það gott í áramótaskaupum. Hvet ykkur eindregið til að rifja upp þessa snjöllu mynd og deila henni með krökkum sem hafa aldur til - horfði á hana með dóttur minni 12 ára og hún skemmti sér hið besta.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli