sunnudagur, 21. júlí 2013

Vargsöld

VargsöldVelkomin á nýja bókabloggið mitt! Ég lofa nú engu um mikla virkni, en ég er að spá í að færa bókablogginn sem ég hef skrifað í menntabloggið og reyna að hafa hlutina á réttum stöðum. Ég skrifa svo kannski stundum um bækur á ensku, en þá mundi ég líklega setja það á enska bloggið. Draumurinn er að blogga um hverja þá bók sem ég les, en það er nú kannski svolítið metnaðarfullt. Líkt og í öllum öðrum bloggunum mínum þá verður það sem hér birtist hrátt og hresst, og yfirleitt svona frekar impressjónískt og byggt á því sem ég man um bækurnar.

Á sundlaugarbökkum og strönd í Roquetas de Mar á Spáni las ég nýju íslensku fantasíuna Vargsöld eftir Þorstein Mar Gunnlaugsson. Ég skemmti mér mjög vel og hlakka til að lesa framhaldið - í þessari umfjöllun eru ekki neinir beinir svona lestrarspillar, en kannski er ekki hægt að komast alveg hjá því....

Heimurinn sem Þorsteinn skapar er áhugaverður, og minnir um margt á aðra slíka sem skapaðir hafa verið af  fantasíuhöfundum. Líkt og margir sem hafa gaman af svona litteratúr finnst mér kortin skemmtilegur hluti af svona verki, og ég verð að viðurkenna að mér fannst kortið mjög óspennandi og gefa litlar upplýsingar. Hins vegar voru skemmtilegar lýsingar í textanum og spennandi vísbendingar um þær slóðir sem síðari sögur kunna að leiða okkur á. Þorsteinn skapar ákveðna vitund um fjölbreyttan heim með langri sögu þar sem ólíkar vitsmunaverur hafa átt misfriðsamlegt líf saman, tala ólík tungumál og eru misheppileg til nábýlis (naddar og nátttröll eru ekki ákjósanlegir nágrannar).

Eitt sem er áberandi í þessari bók er tilraun Þorsteins til að gera upp við hefðbundin kynjahlutverk, og raunar líka kynþáttahlutverk. Aðalhetjan er Ráðgríð, sem er ung stúlka og vinur hennar Hrærekur sem er svartur. Þau mynda svo þríeyki með Dimmu sem er götustelpa úr Fálkahöfn. Hér fetar Þorsteinn að einhverju leyti í fótspor Ursula le Guin. Jafnframt má ráða af umfjöllun um ólík samfélög og menningu í heimi bókarinnar að þar þekkist samfélög með miklu jafnrétti. Valdamikil embætti eru höndum bæði kvenna og karla. Hins vegar má kannski segja að sagan sé samt nokkuð hefðbundin í því hversu fyrirferðamikil umfjöllun um átök og bardaga er, lýsingar á vopnum o.s.frv. Þær lýsingar eru vel gerðar og spennandi og þar má greina áhrif frá mikilli reynslu og þekkingu Þorsteins á spunaspilum. Ráðgríð er líka að einhverju leyti það sem maður gæti kallað strákastelpa og þannig mætti segja að skrefið sé ekki stigið til fulls.

Hafandi sagt það þá verð ég að segja að þá finnst mér meðferð hans á kynferðisofbeldi og sálrænum afleiðingum þess metnaðarfullar og nokkuð áhrifamiklar. Hér er farið inn á svið sem ég hef nú ekki oft séð í svona bókum. Það atriði gerir að hér er alls ekki um barnabók að ræða og myndi ég benda fólki á að vara yngri lesendur við þessu. Að öðru leyti er lítið fjallað um kynferðismál, en ég geri ráð fyrir að spennan milli Hræreks og Ráðgríðar muni magnast í síðari bókum, og gæti verið efni í dramatískan ástarþríhyrning þarna á ferðinni...

Siðferðilegur veruleiki bókarinnar er nokkuð hefðbundinn þar sem heimurinn inniheldur verur sem eru skilyrðislaust vondar og virðast réttdræpar - t.d. naddar og nátttröll. Þetta finnst mér ákveðin vonbrigði þar sem mér finnst heimar líkt og le Guin skapar og Geore R.R. Martin þar sem ekki er slíku til að dreifa nema að litlu leyti mun áhugaverðari. Hér er Þorsteinn nær einfaldari heimsmyndum á borð við þá sem má finna hjá Tolkien. Hins vegar, líkt og hjá Tolkien, eru blæbrigði, breyskleiki og drami í herbúðum hinna 'góðu'. Ég myndi vilja fá að sjá aðeins meiri samúð með naddagreyjunum í seinni bókunum, við sjáum hvað setur.

Grundvallarplottið, sem snýst um 'roðasteininn' og yfirvofandi 'vargsöld' virkar mjög hefðbundið og líkist ótal fantasíum af þessu tagi. Spádómar um væntanlegan heimsendi, og gripir sem búa yfir einhverjum óútskýranlegum mætti sem er eftirsóttur af öllum eru grunnelement í geiranum. Þetta hefur kosti og galla - kannski þann kost helstan að þarna er þráður sem bindur verkið saman og gefur fyrirheit um endi. Gallinn gæti verið sá að þetta er kannski örlítið ótrúverðugt - kannski asnalegt að segja það um verk af þessu tagi en ég hugsa að glöggir lesendur skilji hvað ég á við. Reyndar er heimur Þorsteins ekki heimur þar sem galdrar hafa mikið hlutverk og ég held að það sé ákveðin kostur þar sem að galdramennska og seiðakúnstir hafa ríka tilfinningu til að fara út í vitleysu og gefa höfundum líka tækifæri til að leysa mál á allt of einfaldan og óspennandi hátt.

Málið á bókinni er skemmtilega alvarlegt og nær vel andanum sem til er ætlast. Dimma á greinilega að tala e.k. götumál og það heppnast alveg þokkalega að koma því til skila. Nöfnin á karakterum eru skemmtileg og fjölbreytt, en í þeim er helsta vísbending um mismunandi tungumál og málheima í veröld verksins.

Eitt smáatriði, sem líka lítur að 'trúverðugleika' er efnahagslegur. Mér finnst það ótrúverðugt að þorp með jafn stabílan efnahag og Vegamót byggi afkomu sína að mestu á veiðum en ekki landbúnaði. Þegar smíða skal heim þarf að mínu viti að hafa svona í huga - kannski er hér um að ræða skort á þekkingu á samfélögum miðalda og óska ég þá bara eftir leiðréttingu!

Sjónarhorn sögunnar er alltaf Ráðgríðar og virkar það ágætlega. Mér finnst þó oft skemmtilegra þegar sjónarhorn tengist fleiri persónum, t.d. þótti mér það mjög flott í Hrafnsauga þegar sjónarhorn illmennanna fær að koma með. Áhugavert gæti verið að í næstu bóki væri aðalpersónan kannski Hrærekur eða Dimma - þá gæti líka verið hægt að vísa til baka í þessa bók með nýju sjónarhorni. En nú er kannski komin of mikil afskiptasami inn í textann hjá mér.....

Þorsteinn er að mínu mati vaxandi og spennandi höfundur sem hefur í þessu verki lagt sitt til vaxandi flóru furðusagna á íslensku og legg ég til að allir sem einhvern áhuga hafa á svona bókum stökkvi í næstu bókabúð og kaupi sér eintak, ellegar hlaði niður rafbókinni!

3 ummæli:

  1. "Siðferðilegur veruleiki bókarinnar er nokkuð hefðbundinn þar sem heimurinn inniheldur verur sem eru skilyrðislaust vondar og virðast réttdræpar - t.d. naddar og nátttröll. Þetta finnst mér ákveðin vonbrigði þar sem mér finnst heimar líkt og le Guin skapar og Geore R.R. Martin þar sem ekki er slíku til að dreifa nema að litlu leyti mun áhugaverðari."

    Skemmtileg rýni en þessu er ég óssammála hvað Georg varðar. Vissulega eru Starkar ófullkomnir, og óþokkarnir Lannisterarnir líka með kosti og breyskir. Flestir gráir frekar en hvítir.

    En er einhver nokkurn tímann í vafa um hvort það megi ekki drepa ís-verurnar í norðri. Ég hef enn ekki séð hann gera þær mennskari, kannski von á því í næstu bókum.

    SvaraEyða
  2. Kannski orða ég þetta illa, ég er alveg sammála athugasemd varðandi georg!

    SvaraEyða
  3. Kannski orða ég þetta illa, ég er alveg sammála athugasemd varðandi georg!

    SvaraEyða