laugardagur, 7. september 2013

Astrópía

Astropia poster.jpg

Sá í gær aftur Astrópíu og fannst hún hafi staðist tímans tönn nokkuð vel. Ég hjó eftir nokkrum punktum sem mér fundust skemmtilegir - samspil teikninga og hreyfimynda, kynusli,  karakter hrunverjans og svo trúverðug og skemmtileg framsetning á kúltúr spunaspilanna.

Teikningarnar eru flottar og tæknilegar lausnir í kringum það eru flottar. Allt lúkkið og stemmingin í hreyfimyndaþættinum hefur líka ákveðin teiknimyndablæ, veggfóðrin í íbúðunum, fangabúningarnir o.s.frv. Þáttur í þessu er hvernig fangelsin eru 'ameríkaníseruð' (A-álma; C-álma) og skemmtileg útfærsla á flóttanum. Heimur myndarinnar er þannig í raun þrefaldur: 'raunveruleikinn', teiknimyndirnar og svo heimur spilanna - sem rennur svo saman með skemmtilegum hætti í lokauppgjörinu.

Ég myndi segja að Astrópía leggi með skemmtilegum hætti til atlögu við steríótýpur. Þannig þroskast Hildur út úr svona týpískri ljóskutilveru yfir í að vera sjálfstæð sterk kona í gegnum kynni sín af nördunum. Atriðið þegar hún mótmælir klæðaburði karaktersins síns í spilinu er mjög skemmtilegt ("já en, svona eru konur alltaf í svona spilum") - flissið í Betu við þetta tækifæri er skemmtilegt. Með sama hætti er Dagur afar áhugaverður - hann er semsagt spunaspilari, sem er mjög metró í klæðaburði, þýðir ástarsögur og kennir dans á elliheimili - en er ekki hommi - og það er aldrei hintað að því í myndinni að svo gæti verið. Hugsa reyndar að dagur þessi myndi flokkast á mörgum levelum sem 'rasshaus' samkvæmt flokkunarkerfi þekkts fræðimanns á sviði karlmennsku.

Jolli er svo mjög skemmtilega túlkaður hefðbundinn kalldrullusokkur og hrunverji, með penininga falda á Cayman - sem vill ekki að kærastan hans vinni í einhverri lúðabúð. Það kemur líka inn í kynjapælinguna hvernig stelpurnar í kynningunni misheppnuðu í upphafi eru í einhverjum fáránlegum bíkíníum í ískulda - að Hildur fer alltaf aftur í úlpuna um leið og hann hverfur - smá uppreisn í henni strax þá..

Spilaatriðin eru svo algjör snilld og hvernig rödd GMs-ins Goggi hljómar og raddir í og úr spili koma saman er algjörlega brilljant - og ég veit ekki annað en að þetta sé einstakt í kvikmynd . Spunaspil eru yfirleitt sett fram annaðhvort sem einhvers dæmi um botnlausan nördaskap og almenna ömurð (t.d. í Big Bang Theory) eða sem eitthvað skelfilega hættulegt fyrirbæri. Myndir sem byggja á ferða milli ímyndaðs veruleika og veruleikans byggja undantekningalítið á bókum, kvikmyndum eða (í minna mæli) tölvuspilum. Þetta er svolítið skondið því spunaspil bjóða svo augljóslega upp á þetta og geta verið endalaus uppspretta frábærra verka á borð við Astrópíu. Að auki er til fyrirmyndar að öll tækniorð og samtöl um efnið eru mjög sannfærandi og byggja á raunverulegum spilum, hugtökum og höfundum (t.d. Monte Cook). Rétt að nefna að sú innlifun sem Hildur kemst samstundis í samkvæmt myndinni er ekki endilega reynsla allra sem spila í fyrsta skipti - en líklega er hugmyndin að Goggi sé leikstjórnandi af allra bestu gerð. Þegar ég hóf að spila D&D núna í hitteðfyrra tók ég stutt prufuspil undir stjórn Þorsteins Mars Gunnlaugssonar og það var næstum svona .... næstum..... Eina sem kannski mætti hnýta í í þessu samhengi er að LARP er látið hanga úti sem eitthvað óbærilega hallærislegt - og sem Goggi er hættur í og hálf skammast sín fyrir. Larpið er kannski síðasta vígið, en það er fyndið að margir die-hard spilanördar virðast einhvern á því máli að það sé síðasta sort - þó það sé náttúrulega bara enn ein fjölbreytt og skemmtileg birtingamynd spilakúltúrsins.

Að lokum er líka skemmtileg að sjá að þarna er samankominn stór hluti þeirra sem síðan leika í vöktunum og áhugaleikarar margir sem hafa t.d. gert það gott í áramótaskaupum. Hvet ykkur eindregið til að rifja upp þessa snjöllu mynd og deila henni með krökkum sem hafa aldur til - horfði á hana með dóttur minni 12 ára og hún skemmti sér hið besta.




miðvikudagur, 28. ágúst 2013

Lestur

Halló.
Líkt og margt annað þá breytist lestur aðeins við þessa rafvirknvæðingu alla og það er að ég held ljóst að hann sé nú ekki að leggjast af, nema síður sé. Ég held að t.d. sé þátttaka í fyrirbærum eins og Goodreads sem ég mæli með og hvar ég er með örlitla nærveru - og svo alskonnar gúmmulaði á YouTube eins og t.d. Sword and Laser sem er alveg frábært afar líklegt til að örva lestur. Svo getur maður bara hlaðið bókum niður í símana, paddana og kindlanna og þarf ekki einu sinni lampa lengur til að lesa - og sér hvað maður á langan tíma eftir í að klára. Ég er núna búinn með 63% af 1Q84 eftir Murakami og er alveg stúmmf yfir henni - what a ride segi ég nú bara. Er ekki viss hvort ég les svo The Magicians eða kannski bók tvö í þarna söng um ís og eld eða bara eitthvað allt annað.

Hlustaði svo um daginn á okkar gagnmerka borgarmeistara í einhverju útvarpsspjalli um bækur og var hann þar með ýmsar skemmtilegar pælingar - þá áhugaverðasta þó að lestur væri eitthvað svona sem kæmi til manns og maður flæddi með og ætti ekki að stýra eða skipuleggja of meðvitað. Þarna er svona ákveðin zen-væmni í gangi sem ég fíla í ræmur .... ég t.d. get eiginlega aldrei lesið ljóðabækur, en einstaka sinnum stökkva þær á mig.... aðrar bækur bara einhvern veginn festa sig við mig ég bara verð.... ég les líka helst bara skáldskap en einstaka heimspekiritlingur og mjög skemmtilegt svona 'popular science' dót nær í gegn.

Eitt sem ég nefndi ekki og kannski blogga um einhverntíma bráðum er hið stórmerka fyrirbæri sem fandom er - tökum það síðar......

sunnudagur, 21. júlí 2013

Vargsöld

VargsöldVelkomin á nýja bókabloggið mitt! Ég lofa nú engu um mikla virkni, en ég er að spá í að færa bókablogginn sem ég hef skrifað í menntabloggið og reyna að hafa hlutina á réttum stöðum. Ég skrifa svo kannski stundum um bækur á ensku, en þá mundi ég líklega setja það á enska bloggið. Draumurinn er að blogga um hverja þá bók sem ég les, en það er nú kannski svolítið metnaðarfullt. Líkt og í öllum öðrum bloggunum mínum þá verður það sem hér birtist hrátt og hresst, og yfirleitt svona frekar impressjónískt og byggt á því sem ég man um bækurnar.

Á sundlaugarbökkum og strönd í Roquetas de Mar á Spáni las ég nýju íslensku fantasíuna Vargsöld eftir Þorstein Mar Gunnlaugsson. Ég skemmti mér mjög vel og hlakka til að lesa framhaldið - í þessari umfjöllun eru ekki neinir beinir svona lestrarspillar, en kannski er ekki hægt að komast alveg hjá því....

Heimurinn sem Þorsteinn skapar er áhugaverður, og minnir um margt á aðra slíka sem skapaðir hafa verið af  fantasíuhöfundum. Líkt og margir sem hafa gaman af svona litteratúr finnst mér kortin skemmtilegur hluti af svona verki, og ég verð að viðurkenna að mér fannst kortið mjög óspennandi og gefa litlar upplýsingar. Hins vegar voru skemmtilegar lýsingar í textanum og spennandi vísbendingar um þær slóðir sem síðari sögur kunna að leiða okkur á. Þorsteinn skapar ákveðna vitund um fjölbreyttan heim með langri sögu þar sem ólíkar vitsmunaverur hafa átt misfriðsamlegt líf saman, tala ólík tungumál og eru misheppileg til nábýlis (naddar og nátttröll eru ekki ákjósanlegir nágrannar).

Eitt sem er áberandi í þessari bók er tilraun Þorsteins til að gera upp við hefðbundin kynjahlutverk, og raunar líka kynþáttahlutverk. Aðalhetjan er Ráðgríð, sem er ung stúlka og vinur hennar Hrærekur sem er svartur. Þau mynda svo þríeyki með Dimmu sem er götustelpa úr Fálkahöfn. Hér fetar Þorsteinn að einhverju leyti í fótspor Ursula le Guin. Jafnframt má ráða af umfjöllun um ólík samfélög og menningu í heimi bókarinnar að þar þekkist samfélög með miklu jafnrétti. Valdamikil embætti eru höndum bæði kvenna og karla. Hins vegar má kannski segja að sagan sé samt nokkuð hefðbundin í því hversu fyrirferðamikil umfjöllun um átök og bardaga er, lýsingar á vopnum o.s.frv. Þær lýsingar eru vel gerðar og spennandi og þar má greina áhrif frá mikilli reynslu og þekkingu Þorsteins á spunaspilum. Ráðgríð er líka að einhverju leyti það sem maður gæti kallað strákastelpa og þannig mætti segja að skrefið sé ekki stigið til fulls.

Hafandi sagt það þá verð ég að segja að þá finnst mér meðferð hans á kynferðisofbeldi og sálrænum afleiðingum þess metnaðarfullar og nokkuð áhrifamiklar. Hér er farið inn á svið sem ég hef nú ekki oft séð í svona bókum. Það atriði gerir að hér er alls ekki um barnabók að ræða og myndi ég benda fólki á að vara yngri lesendur við þessu. Að öðru leyti er lítið fjallað um kynferðismál, en ég geri ráð fyrir að spennan milli Hræreks og Ráðgríðar muni magnast í síðari bókum, og gæti verið efni í dramatískan ástarþríhyrning þarna á ferðinni...

Siðferðilegur veruleiki bókarinnar er nokkuð hefðbundinn þar sem heimurinn inniheldur verur sem eru skilyrðislaust vondar og virðast réttdræpar - t.d. naddar og nátttröll. Þetta finnst mér ákveðin vonbrigði þar sem mér finnst heimar líkt og le Guin skapar og Geore R.R. Martin þar sem ekki er slíku til að dreifa nema að litlu leyti mun áhugaverðari. Hér er Þorsteinn nær einfaldari heimsmyndum á borð við þá sem má finna hjá Tolkien. Hins vegar, líkt og hjá Tolkien, eru blæbrigði, breyskleiki og drami í herbúðum hinna 'góðu'. Ég myndi vilja fá að sjá aðeins meiri samúð með naddagreyjunum í seinni bókunum, við sjáum hvað setur.

Grundvallarplottið, sem snýst um 'roðasteininn' og yfirvofandi 'vargsöld' virkar mjög hefðbundið og líkist ótal fantasíum af þessu tagi. Spádómar um væntanlegan heimsendi, og gripir sem búa yfir einhverjum óútskýranlegum mætti sem er eftirsóttur af öllum eru grunnelement í geiranum. Þetta hefur kosti og galla - kannski þann kost helstan að þarna er þráður sem bindur verkið saman og gefur fyrirheit um endi. Gallinn gæti verið sá að þetta er kannski örlítið ótrúverðugt - kannski asnalegt að segja það um verk af þessu tagi en ég hugsa að glöggir lesendur skilji hvað ég á við. Reyndar er heimur Þorsteins ekki heimur þar sem galdrar hafa mikið hlutverk og ég held að það sé ákveðin kostur þar sem að galdramennska og seiðakúnstir hafa ríka tilfinningu til að fara út í vitleysu og gefa höfundum líka tækifæri til að leysa mál á allt of einfaldan og óspennandi hátt.

Málið á bókinni er skemmtilega alvarlegt og nær vel andanum sem til er ætlast. Dimma á greinilega að tala e.k. götumál og það heppnast alveg þokkalega að koma því til skila. Nöfnin á karakterum eru skemmtileg og fjölbreytt, en í þeim er helsta vísbending um mismunandi tungumál og málheima í veröld verksins.

Eitt smáatriði, sem líka lítur að 'trúverðugleika' er efnahagslegur. Mér finnst það ótrúverðugt að þorp með jafn stabílan efnahag og Vegamót byggi afkomu sína að mestu á veiðum en ekki landbúnaði. Þegar smíða skal heim þarf að mínu viti að hafa svona í huga - kannski er hér um að ræða skort á þekkingu á samfélögum miðalda og óska ég þá bara eftir leiðréttingu!

Sjónarhorn sögunnar er alltaf Ráðgríðar og virkar það ágætlega. Mér finnst þó oft skemmtilegra þegar sjónarhorn tengist fleiri persónum, t.d. þótti mér það mjög flott í Hrafnsauga þegar sjónarhorn illmennanna fær að koma með. Áhugavert gæti verið að í næstu bóki væri aðalpersónan kannski Hrærekur eða Dimma - þá gæti líka verið hægt að vísa til baka í þessa bók með nýju sjónarhorni. En nú er kannski komin of mikil afskiptasami inn í textann hjá mér.....

Þorsteinn er að mínu mati vaxandi og spennandi höfundur sem hefur í þessu verki lagt sitt til vaxandi flóru furðusagna á íslensku og legg ég til að allir sem einhvern áhuga hafa á svona bókum stökkvi í næstu bókabúð og kaupi sér eintak, ellegar hlaði niður rafbókinni!