miðvikudagur, 12. janúar 2022

Merking eftir Fríðu Ísberg

 




This is the way the world ends

Not with a bang but a whimper.

        
Forsíða skáldsögunnar Merking eftir Fríðu Ísberg er listaverk eftir Kristínu Helgu Ríkharðsdóttur og Kristínu Karólínu Helgadóttur kallar fram í huga mér ljóðið the Hollow Men eftir T.S. Eliot, sem lýkur á þessum ekkert sérstaklega hressandi og margívitnuðu orðum. Saga Fríðu fjallar einmitt um einhvers konar endalok, endalok einhvers sem er kannski ekki alveg ljóst hvað var. Í þessu bloggi ætla ég að setja fram nokkrar pælingar út frá bókinni sem ég vona að hressi og kæti einhverja og veki mögulega einhver viðbrögð.  Rétt er að taka fram að pistilinn innihelur spilliefni fyrir þá sem ekki hafa lesið bókina. 

Fyrst er til þess að taka að þessi skáldsaga tilheyrir geirabókmenntum, hér er á ferðinni vísindaskáldsaga af gerðinni framtíðardystópía. Hér sver hún sig í ætt með 1984 George Orwell, Handmaid's tale Margret Atwood og Clockwork Orange eftir Anthony Burgess. Tengingin sem mér finnst samt áleitnust eru bresku þættirnir Black Mirror, en þættirnir Nosedive og 15 million merits koma upp í hugann. Hér er fjallað um framtíðarsamfélag þar sem fólki er skipt upp í hópa með því að beita sálfræðiprófi sem mælir samkennd. Slík flokkun á fólki er viðvarandi þema í svona bókmenntum, en flokkunarkerfið sem Fríða bíður upp á er óvenjuögrandi - því hvern myndi ekki vilja búa í samfélagi þar sem samkennd einkennir alla sem þú umgengst? Ólíkt samfélagsmiðlavíti t.d. Nosedive þar sem yfirborðskennd like annarra eru það sem skiptir máli, er hér um vísindalegt alvörupróf að ræða samkvæmt rökvísi heims bókarinnar, og í rauninni fáir sem draga gildi þess í efa í bókinni. Samskipti fólks við rafrænar mælingar snjalltækja hefur náð nýjum hæðum í verkinu og ræða allir við rafræna veru sem heitir Zoë sem er arftaki Siri og Alexu. Það eru komnar lestir í Reykjavík og byggð í Viðey. 

Hugmyndin um Merkinguna sem er þungamiðja verkisins er að hægt sé að mæla samkennd með viðbrgöðum við svipbrigðum fólks og þá er viðfangið tengt við heilaskanna af einvherju tagi. Ekki virðist vera hægt að svindla á prófinu með einföldum hætti. Sálfræðingafélag Íslands (SÁL) er leiðandi afl í beitingu þessa prófs. Þeir sem ná prófinu eru svo merktir og fá ákveðinn status í samfélaginu - ákveðin hverfi eru merkt, fyrirtæki o.s.frv. Til stendur að gera merkingu að skyldu fyrir alla og þar með yrði komið á einu alsherjar aðskilnaðarkerfi sem nær yfir allt samfélagið. Þeim sem ekki ná eru svo boðnir sálfræðitímar, og jafnframt eru til lyf sem geta þjónað sem hluti af meðferðinni. Ísland virðist vera leiðandi í heiminum á þessu sviði. 

Eitt af því sem er mjög heillandi og áleitið við sögu Fríðu er hversu aðlaðandi og svona eins og enskir (og kannski Tristan) myndu segja seductive þessi hugmynd er. Mér finnst hérna vera hægt að draga upp hliðstæðu við bólusetningarskyldu sem mörgum er hugstæð á okkar tímum. Nú er að orðið þannig víða um lönd að einungis "merktir" (bólusettir) fá aðgang að ýmsum gæðum (ferðalögum/ ákveðnum störfum/ veitingahúsum).... Eftirlitsiðnaðurinn með Heilsuveru (niðurstaða prófsins birtist einmitt með svipuðu hætti og gögn á Heilsuveru)  og ÍE í fararbroddi blómstrar. Og allt er þetta í nafni lýðheilsu og öryggis, sem er vitaskuld gott og blessað - en merkingin í bók Fríðu hefur mjög sambærilegu hlutverki að gegna - viljum við ekki losna við lygara, fíkla og þjófa úr umhverfi okkar, alveg eins og við viljum ekki smitast af Covid19? Er frelsið, réttur til einkalífs, réttur yfir eigin líkama einhvers virði ef í boði er heilsa og öryggi? 


Tristan og Eyja eru tvær persónur bókarinnar sem eru í vanda vegna sífellt stærri yfirráða merkingarsinna. Ein snilldin hjá Fríðu er að þau koma úr andstæðum samfélagsáttum. Tristan er ungur maður með brotna fortíð sem er mikill andstæðingur prófsins, neitar að sitja það en hefur leiðst út í eiturlyfjaneyslu og afbrot. Eftir því sem sögunni vindur fram fær maður stöðugt meiri og meiri samúð með Tristan og það er augljóst að hann mun ná prófinu þvi hann er mjög empatískur karakter. Fíknin sem hann glímir við, en hann er háður Trexi sem er lyf sem hann fékk fyrst í tengslum við sálfræðimeðferðir sem áttu að gera honum auðveldara að ná prófinu, en kemur síðan í ljós að það er alls ekki góð hugmynd að nota það, en þá er búið að gera heilan hóp fólks að fíklum: og þetta er ábyrgð sálfræðingana sem hafa þvegið hendur sínar af þessu og hampa nú prófinu sínu góða. Tristan er jafnframt notaður af andstæðingum merkingarinnar til að skora samúðarstig. Umræða samtímans um vandamál drengja og ungra karlmanna er endurspegluð með einhverjum hætti hérna og líka pælingar um greiningar, Rítalín og fleira. Þetta eru eldfim og flókin mál. Eyja hins vegar er einhvers konar útrásarvíkingur, ófyrirleitin í viðskiptum og einkalífi hefur hún náð langt í starfi, en nú þegar stefnir í að hún verði að sæta merkingu veit hún að hún mun aldrei ná henni. Hún er líka fíkill og reynir að svindla á prófinu með lyfjanotkun sem tekst ekki, hún lýgur og svindlar en allt kemur fyrir ekki. Þegar við horfum á hana verður freistingin til að segja að kannski væri einmitt bara besta mál að fá svona merkingarskyldu.... En þannig er merkingin ekki bara leið til að afmarka einhverja efri millistétt, málið er flóknara. 

Karlar sem hata konur koma við sögu eins og víðar. Ein aðalpersónan glímir við ótta við eltihrelli og er það mál allt frekar óþægilegt og mjög raunverulegt. Svo er að skilja að hann nái prófinu og þar með er ákvarðað að hann sé ekki hættulegur - en lögreglan virðist í öllu fara eftir niðurstöðum sálfræðilegra mælinga og prófa. Ég er reyndar ekki alveg viss með hvernig á að túlka söguna um Daníel og Vetur, nema að líklega sem viðvörun um að svona fyrirbæri eins og prófið sé í rauninni gervilausn. Svo er annað það að auk þess að vera fórnarlamb misheppnaðra sálfræðitilrauna kemur Tristan frá heimili sem er brotið vegna heimilisofbeldis - og hann og bróðir hans eru í bráðri hættu á að taka á sig syndir föður síns og feðra, og það er alveg morgunljóst að þarna er vandamál sem prófið nálgast það ekki að horfast í augu við eða gera einhverja tilraun til að leysa. Sálfræðileg lausn af þessu tagi leiðir algjörlega hjá sér þær rætur vandamála sem Tristan og fólk i hans stöðu eiga rætur sínar í félagslegu óréttlæti og vanrækslu - þær einblína á einkenni en ekki orsakir. 

Fríða notar tungumálið mjög skemmtilega og sérstaklega varðandi Tristan, sem segir alltaf "einhvern meginn", notar mikla ensku og skilur ekki "að hvetja til dáða" ....og þegar hann er í yfirheyrslu hjá lögreglunni er honum boðinn túlkur. Móðir hans, Alexandría notar líka "einhvern meginn" og þegar hún hittir Vetur, sem er kennari systur Tristans, Naómí, leiðréttir Vetur hana með nokkuð yfirlætislegum hætti. Þessi pæling er mjög áhugaverð og lýsir held ég frekar íslenskum samtíma en nokkurn tíma einhverju framtíðarsamfélagi. 

Líkt og í smokkfiskleiknum, sem ég skrifaði nýlega um er hér ákveðin glíma við mannskilning - í einu af bréfunum til Laílu skrifar Tea "undir mjúkum feldinum er dýr sem er gráðugt og grimmt og hugsar bara um eitt: að lifa af." (194) Þarna lýsir hún hreinræktaðri sýn í anda Thomas Hobbes - og spurnigin hvort að allt með merkninguna sé ekki í raun í þessum anda (þó hún setji þetta reyndar fram sem rök á móti henni). Hobbes taldi að við þyrftum einvaldinn (Leviathan) til að hemja okkur; í heimi merkingar hefur prófið, sálfræðingarnir, lyfin og allt batteríið komið í stað hans til að halda okkur í farvegi sem er samfélagslega ásættanlegur. 

Eliot var eitthvað tens á því að allt væri á leið til fjandans þarna fyrri hluti 20. aldar, og er enn er allt á leið þangað - til að tengja við annað verk tilvísað hér í upphafi - holu mennirnir eru í raun appelsínur með gangverk - við erum ekki heilar manneskjur heldur bara safn merkimiða sem einhver nafnlaus kerfi klína á okkur. 



Engin ummæli:

Skrifa ummæli