keep you doped with religion, sex and TV
and you think you're so clever and classless and free
but you're still fucking peasants as far as I can see (John Lennon)
(fyrirvari þetta er skrifað í einangrun og Covid frændi enn aðeins með tök á mér, en læt samt vaða, svo öll vitleysa eða óskýrleiki skrifast á hann, já og þetta inniheldur spoilera. Ég biðst líka afsökunar ef ég er eitthvað að klúðra með nöfnin, reyni mitt besta)
Hér sjáum við hinn meistaralega aðalleikara í Squid Game, Lee-Jung jae, túlka aðstæðu persónu sinnar Gi-hun þar sem hann á bókstaflega lífið undir því að ná formi af regnhlíf úr sykurplötu án þess að brjóta það.
Þessir ofbeldisfullu og skelfilegu þættir slógu rækilega í gegn á Netflix í haust og það er fyrir marga hluta sakir áhugavert. Í fyrsta lagi að þetta eru kóreanskir þættir með mjög litla beina tengingu við vestræna hluti. Í öðru lagi eru þeir mjög ógeðfelldir og ágengir, og í þriðja lagi fela þér í sér algjörlega skilyrðislausa fordæmingu á kapítalísku neyslusamfélagi samtímans, nokkuð sem ég held að kanski hafi að einhverju leyti farið framhjá einhverjum aðdáenda þáttanna. Ég ætla að gera tilraun til að koma með tilgátur um nokkra lykilþræði í boðskap þáttanna hér að neðan.
Skuldsetning sem valda- og kúgunartæki. Þegar leikendurnir sem hefur verið safnað á staðinn ætla að rökræða við böðla sína þá eru þeim sýnd nokkur dæmi um það hversu skuldsett nokkur þeirra eru, og þannig hafa fórnarlömbin verið fundin og þannig eru þau göbbuð til að halda áfram - vonin um að losna úr skuldahelsinu gerir þau að morðingjum og ómennskum skrímslum (ekki öll samt). Þannig virkar kapítalisminn: neysluhyggja og samkeppni, fjármögnuð með skuldasöfnun gerir okkur að leiksoppum auðvaldsins. David Graeber greinir þetta fyrirbæri mjög glæsilega í meistaraverknu Debt, the first five thousand years og víðar.
Ein lykilsaga og mantra kapítalismans er að peningarnir komi til þeirra sem eru "duglegir". Og framanaf í þáttunum þá fáum við það á tilfinninguna að Gi-hun sem við sjáum hér að ofan sé bara einhver auli, spilafíkill og vitleysingur sem hafi klúðrað öllu. En um miðbik þáttaraðinnar kemur í ljós að ófarir hans koma til vegna þess að hann missir vinnuna í niðurskurði og þaðan fór allt niður á við hjá honum. Svipaða sögu er að segja um flesta leikmenn sem við kynnumst, þeirra ófarir tengjast ólíkum ytri aðstæðum en ekki einhverjum skorti á "dugnaði".
Afmennskun auðvaldsins. Í samtali Gi-hun og Oh il-Nam í síðasta þættinum kemur fram að hvati hans til að skapa þetta ógeðslega algjörlega siðblinda drápsbatterí hafi verið "að honum leiddist". Nú á tímum me-too, og ýmissa afhjúpana um ýmsa áhrifamenn (fyrst og fremst menn, það er víst þannig, þeas. karlmenn) verður að segjast að þó að þetta sé náttúrulega ýkt þá er þetta eitthvað sem er raunverulegt og við skyldum óttast. Framsetningin á ógeðslegu auðmönnunum (the VIPs) er svo líka ýkt og áhugaverð, en manni finnst það óþægilega einhvern veginn raunhæft.... Trú mín á eina prósentinumer semsagt engin. Því miður. (Greaber á víst þann frasa :-) )
Peningar skipta öllu, mannslíf engu. Bæði í Debt the first 5,000 years og í nýju bókinni The Dawn of Everything (meðhöfundur David Wengrow) að hugmyndin sem er ríkjandi í vestrænum samtíma (og þar með í heiminum öllum) um eignarrétt eigi rætur sínar í rómarrétti og sé eiginlega fullkomin og algjör sturlun. Eignarsamband mitt við hlut er þannig að ég get gert hvað sem mig lystir við hann. Eignarkonseptið á svo rætur í þrælahaldi, og eignarhaldi heimilisföðurins á konu sinni og börnum (hann rekur m.a. hvernig einhverjir rómverjar létu lífláta börn sín fyrir einhver smásakir). Eignarhald okkar yfir okkar eigin líkama (við erum eiginlega okkar eigin þrælahaldarar) gerir það svo að við áltíum að við getum með einhverjum samningum afsalað okkur líkama og limum til að taka þátt í einhverjum leik eða losna undan skuldum. Þannig skrifa allir undir einhverja samninga og þar með á það að taka þátt í leik sem endar með lífláti ef þú nærð ekki í mark bara að vera í lagi - og þetta gengur fullkomlega upp í svona hrákapítálískri rökfræði. Samningar sem fólk sem er framarlega í íþróttum, Hollywood og tónlist eru í raun af svipuðum toga.
Annað áleitið atriði er mannskilningurinn sem liggur svona leikjum til grundvallar, en það er í raun heimspekingurinn Hobbes sem lýsti náttúrulegu ástandi mannsi sem bellum omnia contra omnes - lífinu án yfirvalds sem nasty brutish and short, eða eins og rómverjar (ath!) sögðu homo homini lupus. Þessi grundvallar neikvæða sýn á manneðlið er í raun það sem Graeber og Wengrow eru að gagnrýna í verki sínu um dagrenningu alls. Nútíma útgáfur af því að "sanna" þessa sýn eru svo tilraunir í félgassálfræði, eins og Stanford Prison tilraun Zimbardos og hlýðnitilraunir Milgrams - en báðar þessar tilraunir hafa sætt mikilli gagnrýni undanfarið (hlekkir að neðan). Í áðurtilvitnuðu samtali Gi-hun og Oh il-Nam kemur sá gamli (sem er frábærlega leikinn af O Yeong-su, og frábært að láta krúttlega gamla kallinn vera mesta drullusokkinn af öllum) með þau undarlegu rök að þar sem að fólk sé hvort sem er upp til hópa drullusokkar þá væri það bara í lagi að gera eitthvað á borð við það sem hann gerði. Með því að setja fólk í aðstæður eins og gert er í þessu þáttum og hefur verið gert í ýmsum tilraunum framkallast náttúrulega als konar hegðun, en það er fráleitt að halda því fram að það sanni einhliða eitthvað um illsku sem búi eðlislægt innra með okkur öllum.
Annað sem er áhugavert er sú brenglaða siðferðiskennd sem kemur fram í því að í leikunum upplifi leikmenn réttlæti sem þau hafi aldrei upplifa úti í samfélaginu, og þannig verða aðalskipuleggjendur ægilega heilagir þegar kemur í ljós svindl, og biðja þátttakendur með miklum tilþrifum afsökunar. Ekki er hugsað um óréttlætið sem gerði að þau eru komin á þennan stað, og þar að auki hikar þeir svo ekki við að breyta aðstæðum til að gera leikinn meira spennandi fyrir the VIPs.
En snilld þátttanna að Gi-hun býr yfir einhverju öðru og setur manngildið hærra en peningana, þó hann taki þátt í ofbeldinu verður hann meira og meira afhuga því. Einkum er atriðið þar sem hann vill hætta leik rétt áður hann er að sigra - bjarga lífi svikuls og ofbeldisfulls "vinar" í stað þess að taka á móti fáránlega stóru verðlaunafénu, og svo að hann snertir ekki verðlaunaféð þegar hann sleppur út.
Greinilegt er að það verður önnur sería, og spennó að sjá hvert verður farið með þetta. Eitt atriði stendur verulega í mér, en það er hverjir verðirnir eru og hvernig var hægt að fá þá til að taka þátt i þessu blóðbaði, en þetta er oft vandamál í svona þáttum / kvikmyndum að illmenninn hafa einhvern óteljandi fjölda fólks til að fremja glæpi fyrir sig, en það er erfitt að skilja almennilega hvatann hjá þeim - þetta verður einkum áleitið eftir að hver Kapteinninn var kom í ljós. Ef þetta hefði verið sett fram sem e.k. költ hefði þetta mögulega getað meikað sens, en það er ekki þannig.