sunnudagur, 19. maí 2024

Draumur um formennsku í húsfélaginu

 (þetta er smá svona pæling og kannski lítil og krúttleg klípusaga) 

Segjum sem svo að ég búi í þokkalega stórri blokk á stórreykjavíkursvæðinu. Ég er frekar svona drífandi karakter og hef miklar skoðanir varðandi rekstur húsfélagsins, og er ekki ánægð með stöðu mála og stefni á framboð á næsta húsfundi. Vandinn er sá að ég er kannski ekki vinsælasti íbúinn og hef gegnum árin strokið nokkrum í húsinu öfugt.

Í borginni starfar fyrirtæki sem heitir "Kosningasmiðjan". Af þessu fyrirtæki er hægt að kaupa þjónustu sem felur í sér hjálpi fólki að ná kjöri, í fyrirtækjum, innan flokka o.s.frv. Fyrirtækið beitir hringingum, sóknum á félagsmiðlum, rógburði og ýmsu öðru sem hjálpar til að koma viðskiptavininum í embætti sem viðkomandi óskar eftir. Einhver tengsl eru milli fyrirtækisins og stórs stjórnámálaflokks. 

Það eru þrjár leiðir til að fá þjónustu hjá þessu fyrirtæki: 

A kaupa þjónustana beint, borga X% út og svo meira ef árangur næst

B falast eftir þjónustunni pro bono

C fá óumbeðið tilboð í þjónustuna

Jafnframt er hægt að velja hvort að maður er bara opin með að hafa átt í þessum viðskiptum eða hvort maður heldur því alveg fyrir sig, seinni kosturinn kann að vera áhrifaríkari. 

Þjónustan er dýr, en ef þetta er mér mikið kappsmál þá er það mín skoðun að þetta verði húsfélaginu fyrir bestu til lengri tíma litið. 

Kostir B og C eru áhugaverðir. B, af hverju ættu þau að hjálpa, og C er enn dularfyllra. 

Í þessu sambandi hugsa ég að það sé enginn ókeypis hádegisverður og líklega væri þá eins og daninn segir underforstået að fyrst þau hjálpuðu mér ættu þau eitthvað inni hjá mér. Ef nefndur flokkur kæmist til valda og upp kæmu einhverjar pælingar með segjum skipulagsmál þá myndi vera reiknað með því að ég væri ekki með mikið vesen í sambandi við það, svo dæmi sé tekið. 

Til skemmri tíma væri það að mínu mati klárlega best fyrir húsið að ég nái kjöri (farið í nauðsynlegt viðhald o.s.frv.) en langtímaafleiðingarnar og svona einhverjar svona pælingar um siðferði og eðlilegan framgang lýðræðis vefjast fyrir mér. 

Hvaða ráð gefið þið mér ef leið C er í boði, ætti ég að leita eftir leið B, nú eða A (segjum sem svo ég eigi nógan pening) - eða ætti ég að forðast Kosningasmiðjuna eins og pestina? 

sunnudagur, 28. janúar 2024

Málleysingjarnir eftir Pedro Gunnlaug Garcia

 


 Ég var að ljúka við að lesa þessa möguðu skáldsögu. Geggjað verk, að baki liggur greinilega mikil rannsóknarvinna, og í samhengi við Lungu eftir sama höfund sést að glíman við hvernig tráma ferðast í gegnum kynslóðir er Pedro mjög hugleikið. En svo er þessi dans á mörkum og alveg yfir í vísindaskáldskap og sturlaðan og grótesk súrrealisma mér mjög að skapi. Samband okkar við fugla er greinilega líka ofarlega í huga skáldsins..... Kaflarnir um tilveruna í Rúmeníu og afturhvarf til endaloka kommúnismans er líka virkilega djúsí - eftir smá gúggl fann ég nú ekki að þau viðbjóðslegu hjón sem þar ríktu hafi verið í kukli með dýr eins og lýst er í skáldsögunni, en arfleifð þeirra er þó mjög steikt, eins og kemur fram í þessari grein um gervivísindaferil Elenu Ceausescu. Úff. 

Heillandi pælingar Pedros um samfélagsmiðlavæðingu, gervigreind, alkóhólimsma, upplifunarhönnun og erfðaverkfræði eru eitthvað sem ég mæli eindregið með - og svo er hann líka á einhvern mjög óþægilegan hátt mjög fyndin líka. Takk fyrir mig, og hlakka til að sjá meira! Eina sem ergir mig smá er að helsta illmenni sögunnar heiti í höfuðið á einum merkasti hugsuði anarkismans, og ég fatta ekki alveg hvað það á að merkja....