mánudagur, 1. júní 2020

Lög og textar 4 - hinn gaurinn sem er fáviti

Þá er komið að fjórða pósti í þessum vinsæla flokki.  Að þessu sinni tek ég fyrir tegund laga þar sem mælandinn ávarpar einhvern einstakling sem er með einhverjum hætti of. Of tanaður (fer í ljós þrisvar í viku), of duglegur í ræktinni (línum skorinn), of menntaður (sjá að neðan), of frægur (alveg ofboðslega). Frummælandi lagsins er hins vegar með einhvers konar blöndu af minnimáttarkennd og yfirlæti - en er í (nánast) öllum tilfellum siðferðilega hafinn yfir viðfang lagsins, gjarna þá tengt einhvers konar einfaldleika, mögulega fátækt (sem er oft frekar skondið miðað við að höfundar eru gjarna tónlistarmenn sem hafa náð mjög langt).... Mjög gjarna er viðfangið nýlega tekið saman við fyrrverandi ástkonu frummælanda, en það þarf þó ekki að vera, stundum er þetta svona bara eitthvað af því bara. Þessi tegund laga virðist vera nánast að öllu leyti hluti af reynsluheimi karlmanna, Jolene er alls ekki svona lag ef einhver skyldi vera að hugsa um það.

Ég vel tvö svona lög sem mér finnast frekar skemmtileg, annað mjög vel þekkt og hitt síður. Fyrra lagið er með danska söngvaskáldinu C.V. Jorgensen og heitir Entertaineren. Hérna er ávarpaður eitthvað ógurlegt mikilmenni, hvers frægð og árangur er byggður á sandi, sem enginn virðist hafa fattað nema frummælandi lagsins. C.V. er nokkuð þekktur í heimalandi sínu, og er ágætis viðbót fyrir okkur á Íslandi að kynnast honum, en þekking á danskri rokktónlist virðist ekki ná mikið lengra en Kim Larsen. Lagið er fullt af geggjuðum línum - "du har studeret i New York London og Paris, kan udtale dig på et hidtil ukendt akademisk vis" ... og svo er hann líka "den legemliggjorde EDB" på turné med monologer uden mening i". Ekki er ólíklegt að laginu hafi verið beint gegn einhverjum ákveðnum einstaklingi sem var áberandi í Danmörku á áttunda áratugnum, en það er aukaatriði, lagið stendur fyrir sínu þó maður viti það ekki. Entertainerinn er klárlega "of menntaður" og "of frægur". 

Seinna lagið þekkja fleiri, Ed Sheeran, New Man. Hér er fjallað um nýjan unnasta, hugsanlega æskuástar frummælanda. Þetta er einn af þessum sem hefur staðið sig of vel í ræktinni, en það áhugaverðasta sem hann hefur þó tekið sér fyrir hendur er að láta bleikja á sér rassgatið, en ég vil ekki hugsa of langt um hvað það þýðir. Hitt sem mér finnst skemmtilegt er að hann er með tattoo sem hann skilur ekki. 

Íslensku lögin í þessum geira eru allmörg, hugsanlega mætti færa rök fyrir því að Útrásarvíkingurinn okkar í Mosanum sé þarna einhvers staðar nálægt, en ég er nú ekki viss.